Velkomin!

Velkomin á Reykjavík Midsummer Music. Fimmta árið í röð safnast framúrskarandi tónlistarmenn alls staðar að úr heiminum saman í Hörpu á björtustu kvöldum ársins og leika saman af eldmóði.

Í ár snýst allt um þemað 'Wanderer' – hinn frjálsa förusvein. Efnisskráin fer með okkur í ferðalög um heillandi lendur tónlistarinnar. Við fylgjum bæði þekktum leiðum en höldum einnig gjarnan utan vega þar sem leynast óvænt undur.

Komið í Hörpu 16.-19. júní og takið þátt í ævintýrinu með okkur.

Víkingur Heiðar Ólafsson
Listrænn stjórnandi

16. June

Gangandi geimfari

20:00 Norðurljós - Harpa

Ferðaþráin ber okkur alla leið út í geim á þessum upphafstónleikum Reykjavík Midsummer Music 2016, þar sem efnisskráin er römmuð inn af verkum Ravels: Annars vegar stjörnuglitrinu í Introduction et Allegro og hins vegar þokudjúpi píanótríósins í a-moll. Verk Toru Takemitsu, Orion, er kyrrlát sigling milli stjarnanna og Lichtbogen eftir Kaju Saariaho er byggt á norðurljósunum. Að lokum er förinni heitið þangað sem enginn hefur áður komið í alheimsfrumflutningi á nýju geimverki eftir Skúla Sverrisson.

Dagskrá

Maurice Ravel: Introduction et Allegro
Toru Takemitsu: Orion
Kaija Saariaho: Lichtbogen
Skúli Sverrisson: New Work (2016)
Maurice Ravel: Piano Trio

Listafólk

Arngunnur Árnadóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Jennifer Stumm, Katie Buckley, Matthew Barley, Melkorka Ólafsdóttir, Pétur Grétarsson, Skúli Sverrisson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Tai Murray, Viktoria Mullova, Víkingur Ólafsson

„Absolutely unmissable“ — Reykjavík Grapevine

16. June

‘Once there was a way’

23:00 Mengi - Óðinsgötu

Eitt mesta tónskáld Japans á 20. öld, Toru Takemitsu, var að mestu leyti sjálfmenntaður í tónlist en leit á sig sem lærisvein frönsku meistaranna, sérstaklega Debussys og Messiaens. Allir fá þeir þrír að hljóma á þessum tónleikum í Mengi þar sem við fetum okkur milli austurs og vesturs, milli hins kunnuglega og hins framandi, og milli draums og meðvitundar. Titill tónleikanna er fenginn í það sem kalla mætti svar Bítlanna við Wandrers Nachtlied eftir Goethe: Golden Slumbers, hér í umritun Takemitsus fyrir einleikspíanó.

Dagskrá

Toru Takemitsu: And then I knew t’was Wind
Lennon/McCartney/ Takemitsu: Golden Slumbers
Olivier Messiaen: Abîme des oiseaux
Claude Debussy: Sonata for flute, viola and harp

Listafólk

Arngunnur Árnadóttir, Jennifer Stumm, Katie Buckley, Melkorka Ólafsdóttir, Víkingur Ólafsson

„Einn af hápunktum tónlistarársins“ — Fréttatíminn

17. June

Söngvar förusveins

20:00 Eldborg - Harpa

Á rómantíska tímabilinu urðu gönguferðir annað og meira en nauðsynlegur ferðamáti í daglegu lífi: Gönguferðin varð listræn, jafnvel dulræn iðja – leið til þess að nálgast náttúruna og eiga stefnumót við ægifegurð hennar. Sérhvert verk á þessari efnisskrá ber þeirri hugarfarsbreytingu vitni: Dramatískt og þokkafullt tríó Schuberts í Es-dúr (sem margir tengja reyndar við ferðir förupiltsins Barrys Lyndon í kvikmynd Stanleys Kubrick), Söngvar förusveins eftir Mahler (í frábærri umritun Arnolds Schoenbergs fyrir söngvara og kammersveit) og safn vel valinna sönglaga um gleði og sorgir þeirra sem eirðarleysið rekur af stað. Kristinn Sigmundsson fer fyrir fögru föruneyti tónlistarmanna á þessum tónleikum í Eldborg. Ekki láta þá framhjá ykkur fara – sláist heldur í hópinn.

 

Dagskrá

Franz Schubert: Piano Trio No 2
Robert Schumann: In der Fremde
Robert Schumann: Ich wandelte unter den Bäumen
Hugo Wolf: Fussreise
Hugo Wolf: Feuerreiter
Gustav Mahler: Lieder einer fahrenden Gesellen (arr. Schoenberg)

Listafólk

Arngunnur Árnadóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Jennifer Stumm, Katie Buckley, Kristinn Sigmundsson, Matthew Barley, Melkorka Ólafsdóttir, Pétur Grétarsson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Tai Murray, Viktoria Mullova, Víkingur Ólafsson

„Emotionally and intellectually stimulating“ — Concerti Magazine

18. June

Wanderer–fantasían

20:00 Norðurljós - Harpa

Þessir tónleikar hefjast á ferðalagi út fyrir landamæri tempraðrar stillingar – með leiðsögn Charles Ives í kvarttónaverkum hans þremur, 3 Quarter Tone Pieces. Þá fylgjumst við með myndhöggvaranum Calder ganga út úr vinnustofu sinni og út í náttúruna að leita sér fanga, í stuttmynd eftir Herbert Matter. Tónlistin sem hljómar undir myndinni er eftir John Cage, fyrir preparerað píanó – uppfinningu sem gerir píanóleikaranum kleift að kanna nýja hljóðheima sem leynast í hljóðfærinu. Við fáum okkur svo ferskt loft með Béla Bartók, en verk hans, Out of Doors, er eins og hressandi gönguferð um ungverska sveit. Að lokum látum við undan freistingum sumarkvöldsins í verki George Crumb, Music for a Summer Evening.

Dagskrá

Charles Ives: 3 Quarter Tone Pieces
John Cage: Works of Calder
Bela Bartok:  Out of Doors
George Crumb: Makrokosmos III: Music for a Summer Evening

Listafólk

Jerome Lowenthal, Pétur Grétarsson, Steef van Oosterhout, Ursula Oppens, Víkingur Ólafsson

„Hástemmd fegurð, ekki af þessum heimi“ — Fréttablaðið

18. June

‘… de la Terre’

23:00 Mengi - Óðinsgötu

Við snúum aftur í Mengi þar sem okkar bíða margvíslegar jarðneskrar nautnir. Fyrst hljómar ‘…de la Terre’ eftir Kaiju Saariaho fyrir fiðlu og rafhljóð, þar sem ríkuleg og dálítið dularfull náttúruhljóð leika stórt hlutverk. Verk Schumanns, Sollima og Berio búa öll yfir þáttum úr þjóðlögum – í þeim birtist tónskáldið sem ævintýragjarn ferðalangur í leit að nýjum hljóðum. Alban Berg samdi svo smáverkin Vier Stücke um svipað leyti og hann hélt í örlagaríka ferð til að hitta sinn stranga læriföður, Arnold Schoenberg.

Dagskrá

Kaija Saariaho: “…de la Terre”
Alban Berg: Vier Stücke Op. 5
Robert Schumann: 5 Stücke im Volkston
Giovanni Sollima: Lamentatio
Luciano Berio: Naturale

Listafólk

Arngunnur Árnadóttir, Jennifer Stumm, Jerome Lowenthal, Matthew Barley, Pétur Grétarsson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Ursula Oppens,

„Kammermúsík á heimsmælikvarða“ — Víðsjá, RÚV

19. June

Jón Nordal – Frá draumi til draums

14:00 Norðurljós - Harpa

Á þessum tónleikum fögnum við níræðisafmæli Jóns Nordal. Jón er eitt af dáðustu tónskáldum Íslands fyrr og síðar, frumkvöðull á sviði nýrrar tónlistar og ötull uppfræðari margra kynslóða hérlendra tónlistarmanna. Sjálfur lærði hann m.a. í Zürich, París, Róm og Darmstadt og sameinaði sumar af byltingarkenndari hugmyndum aldarinnar sínu eigin tónmáli, sem var skýrt og persónulegt frá upphafi. Á tónleikunum fáum við að heyra sum af fegurstu kammerverkum og sönglögum Jóns frá öllum stigum þess langa ferðalags í tónlist sem hann á að baki – og heldur enn áfram.

 

Dagskrá

Systur í Garðshorni (1944)  

Violin Sonata

Ristur (1985)

Myndir á þili (1992)

Frá draumi til draums (1996)

Andað á sofinn streng (1998) 

Hvert örstutt spor

Listafólk

Arngunnur Árnadóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir, Jennifer Stumm, Kristinn Sigmundsson, Matthew Barley, Sigrún Eðvaldsdóttir, Tai Murray, Víkingur Ólafsson

 

19. June

Grand Finale 2016 – Der Wanderer

20:00 Norðurljós - Harpa

Á lokatónleikum Reykjavík Midsummer Music 2016 látum við undan þrá okkar eftir fjarlægum löndum með því að hverfa inn í dýrlega tónlist – fyrst sönglög Schuberts og Beethovens. Þá könnum við glænýtt verk, glitrandi píanósónötu eftir Áskel Másson, og leyfum svo villtri, ungverskri sígaunatónlistinni í Tzigane eftir Ravel að feykja okkur dálítið af leið. Að lokum hlýðum við á strengjakvartett Dvořáks, verk þar sem lifandi og kraftmikil þjóðlagatónlistin mætir hreinni og klassískri tilfinningu tónskáldsins fyrir formi og stíl. Tónlistin geymir bæði hrópandi ástríður og hvíslandi tregafulla þrá – hún er viðeigandi lokapunktur á hátíðinni í ár.

Dagskrá

Franz Schubert: Der Wanderer
L.v. Beethoven: An die ferne Geliebte
Áskell Másson: Piano Sonata – world premiere
Maurice Ravel: Tzigane
Antonin Dvořák: Piano Quintet

Listafólk

Bryndís Halla Gylfadóttir, Jennifer Stumm, Kristinn Sigmundsson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Tai Murray, Víkingur Ólafsson

 
Þiggið nýjustu fréttir!

Til andlegrar upplyftingar og hressingar sendum við tónlist, fróðleik og – á sérstökum hátíðarstundum – tilboð!

Um hátíðina

Reykjavík Midsummer Music er tónlistarhátíð, stofnuð af Víkingi Heiðari Ólafssyni árið 2012 og haldin í samvinnu við Hörpu. Hátíðin, sem fer fram í kringum sumarsólstöður, hefur vakið athygli fyrir kraftmikla og frumlega dagskrá og laðar til landsins heimsþekkta listamenn sem leika með einvalaliði íslenskra listamanna. Reykjavík Midsummer Music hefur skipað sér sérstakan sess í íslensku menningarlífi, hlotið einróma lof gagnrýnenda og m.a. unnið Íslensku tónlistarverðlaunin sem „Viðburður ársins “ auk þess að hljóta sérstök nýsköpunarverðlaun, „Rogastans“.

Reykjavík Midsummer Music er hátíð fyrir hið forvitna eyra. Dagskrá hvers árs hverfist í kringum afmarkað þema sem tengir saman ólíkar tegundir tónlistar , tónlistarfólks – og oft ólíkar listgreinar. Listræn stefna hátíðarinnar einkennist af því að öll tónlist sem flutt er í dag flokkist í raun sem nútímatónlist, hvort sem hún var samin á 17. eða 21. öldinni. Þegar verkum úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum er teflt saman getur orðið mikill galdur, hverjir tónleikar að sögu sem aldrei fyrr hefur verið sögð. Þannig viljum við hafa það.

 

Við þökkum okkar tónelsku, fyrirtaks styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn.