Velkomin!

Reykjavík Midsummer Music hefur sjaldan skartað jafn fríðu föruneyti listamanna og í ár. Hátíðin fer fram í Hörpu 22.-25. júní 2017 en hér eftir verður hún haldin á tveggja ára fresti.

Hugmyndin að baki Reykjavík Midsummer Music er einföld: að bjóða tónleikagestum upp á ógleymanlega tónleika á bjartasta tíma ársins.

Gjörið svo vel og góða skemmtun!

Víkingur Heiðar Ólafsson
Listrænn stjórnandi

22. June

Mozart, Pärt, Stravinsky

20:00 - Norðurljós - Harpa

Hefð og frelsi þurfa ekki að vera andstæður. Um það vitna frumleg og litrík kammerverk tónskáldanna þriggja sem fléttast saman á opnunartónleikum Reykjavík Midsummer Music 2017. Verk Wolfgangs Amadeusar Mozarts sem hljóma á tónleikum bera vissulega fágun klassíska stílsins fagurt vitni, en einnig þeirri hugmyndaauðgi, frelsi og sköpunargleði sem einkenndi ævinlega nálgun hans. Það sama má reyndar segja um Rússann Igor Stravinsky, sem átti sína byltingarkenndu tónhugsun undir djúpri þekkingu á hefðinni – líkt og heyra má í rífandi ferskum nýklassískum konsert fyrir tvö píanó og elegíu fyrir einleiksvíólu. Þá hljóma nokkur af fyrstu verkunum sem eitt áhrifamesta tónskáld samtímans, Arvo Pärt, samdi í hinum nánast yfirskilvitlega einfalda tintinnabuli-stíl, en einnig tvö verk sem kveðast á við fortíðina, hin barokkskotna Summa hið hrífandi fagra Mozart-Adagio.

Dagskrá

Arvo Pärt: Spiegel im Spiegel
W.A. Mozart: Rondo in D major
A. Pärt: Fratres
W.A. Mozart: Larghetto and Allegro
A. Pärt: Mozart-Adagio
W.A. Mozart: Piano Quartet No 1
A: Pärt: Summa
I. Stravinsky: Elegy
A. Pärt: Hymn to a great City
I. Stravinsky: Concerto for Two Pianos

Listafólk

Víkingur Ólafsson, Julien Quentin, Lars Anders Tomter, István Várdai, Sayaka Shoji, Rosanne Philippens

„Absolutely unmissable“ — Reykjavík Grapevine

23. June

Ímyndað landslag

20:00 Norðurljós - Harpa

Um miðja 20. öld sökkti bandaríska tónskáldið John Cage sér í austræna heimspeki, eftir að hafa átt í langri krísu sem einkenndist af vantrú á tónlist samtímans. Hann byrjaði að tileinka sér slembiaðferðir í sköpun, meðal annars notkun kínverska dulspekiritsins I Ching. Það er úr þessum jarðvegi sem titilverk þessara tónleika, Ímyndað landslag nr. 4 fyrir 12 útvörp er sprottið. Í flutningi þessa tímamótaverks fáum við nokkra af fremstu tónlistarmönnum samtímans til að leggja frá sér hljóðfærin sem þeir hafa helgað líf sitt, og taka upp útvarpsviðtæki í staðinn, frelsast undan reglubundinni og rökrænni framvindu vestrænnar tónlistar, og opna hjarta sitt í staðinn fyrir því óútreiknanlega og óvænta. Við leggjum upp í tvær óvissuferðir um hið ímyndað landslag innra með spunameistaranum Davíð Þórs Jónssyni, en hlýðum milli þeirra á öldugjálfur ljósvakans á ný í verkinu Credo in US, fyrir þrjá slagverksleikara og útvarp. Frelsið fær á sig pólitískari blæ í  hinni snilldarlegu síðustu sinfóníu Dmitris Shostakovich, tónskálds sem ævinlega þurfti að feta einstigið milli undirgefni og uppreisnar í Sovétríkjum Stalíns.

Dagskrá

John Cage: Imaginary Landscape No 4
Davíð Þór Jónsson: Improvisation
John Cage: Credo in US
Davíð Þór: Improvisation
Dmitri Shostakovich: Symphony No 15

Listafólk

Davíð Þór Jónsson, Pétur Grétarsson, Steef van Oosterhout, Eggert Pálsson, Vilde Frang, Nicolas Altstaedt, Víkingur Ólafsson

„Einn af hápunktum tónlistarársins“ — Fréttatíminn

23. June

Síðkvöld í Mengi

23:15 Mengi

Lágnættistónleikarnir í Mengi við Óðinsgötu eru orðnir að traustri og vinsælli hefð á Reykjavík Midsummer Music. Í Mengi ríkir hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft sem ýtir undir listrænar tilraunir, tónlistarmennirnir kynna sjálfir verkin sem þeir spila og spjalla við áheyrendur. Lágnættistónleikarnir eru stuttir, afslappaðir og skemmtilegir, nokkurs konar kvöldhressing fyrir sumarnóttina.

Dagskrá

Víkingur Heiðar kynnir listamenn hátíðar, sem leika í framhaldi þá tónlist sem andinn blæs þeim í brjóst,

Listafólk

Listamenn RMM 2017

„Emotionally and intellectually stimulating“ — Concerti Magazine

24. June

Algleymi

14:00 Norðurljós - Harpa

 

Á þessum tónleikum nálgast þrír af færustu strengjaleikurum samtímans algleymið í þremur hávirtúósískum snilldarverkum. Sónata Maurice Ravel fyrir fiðlu og selló er samin til minningar um Claude Debussy, en þótt Ravel dáði tónlist Debussys var samband þeirra flókið – Ravel stóð lengst af í skugga Debussys og öðlaðist í raun aðeins sess sem höfuðtónskáld Frakka eftir andlát hans. Í sónötunni virðist Ravel frjáls undan allri gamalli gremju í garð hins látna meistara, en einnig má greina í henni áhrif annars tónskálds – Zoltáns Kodály. Það er við hæfi að ungverski sellósnillingurinn István Várdai leiki Sónötu Kodálys fyrir einleiksselló: Hún var samin 1915 fyrir sellóleikarann Jeno Kerpely, sem virðist, rétt eins og István, hafa búið yfir takmarkalausri getu á hljóðfærið. Sónatan teygir sig yfir fimm áttundir og í henni er notast við svo til allar tæknilegar sellóbrellur sem fyrirfinnast, auk þess sem Kodály umbreytti í raun sellóinu í verkinu með því að stilla tvo lægstu strengi þess hálftóni lægra en vaninn er, svo vænghaf hljóðfærisins eykst og nýir hljómaheimar opnast. Sónatan er ægifögur og full af tilfinningalegri ákefð – með traustar rætur í ungverskri þjóðlagatónlist en frískandi nútímaleg í anda. Að lokum hljómar nýtt verk sem japanska fiðlustjarnan Sayaka Shoji pantaði af landa sínum, tónskáldinu Toshio Hosokawa, og frumflutti í Wigmore Hall 2016, Extasis – eða Algleymi.

Dagskrá

M. Ravel: Sónata fyrir fiðlu og selló
Z. Kodály: Sónata fyrir einleiksselló
T. Hosokawa: Ecstasy fyrir einleiksfiðlu

Listafólk

Sayaka Shoji, Rosanne Philippens, István Várdai

„Hástemmd fegurð, ekki af þessum heimi“ — Fréttablaðið

24. June

Fantasíur frá nýju og gömlu Vín

20:00 Norðurljós - Harpa

Þessir tónleikar eru helgaðir tónlist Vínarborgar, og tveimur örlagavöldum í þróun tónlistar Vesturlanda, þeim Franz Schubert og Arnold Schoenberg. Við heyrum hrífandi noktúrnu Schuberts fyrir strengjatríó, fantasíu Desyatnikovs um lokalag Schuberts í ljóðaflokknum Vetrarferðinni, hinn stórbrotna en ókláraða strengjakvartett Quartettsatz, og eitt dáðasta píanóverk Schuberts, fjórhentu fantasíuna í f-moll. Að lokum gefst færi á að bera saman fantasíu Schuberts fyrir fiðlu og píanó og fantasíu Schoenbergs fyrir sömu hljóðfæri. Við fyrstu sýn virðast verkin eiga lítið sameiginlegt. Schubert samdi sína fantasíu 1827, ári áður hann lést, og byggði hana á ástríðufullu söngljóði sínu Sei mir gegrüsst. Slíkar tilfinningar eru víðs fjarri í fantasíu Schoenbergs sem frumflutt var í Kaliforníu 1949, enda hafði þessi upphafsmaður 12-tónakerfisins lagt sig í líma við að skera öll tengsl við tónlist gömlu Evrópu. Verkin eiga þó sameiginlegt það sem gerir þau að sannkölluðum fantasíum – hið sanna frelsi ímyndunaraflsins.

Dagskrá

Franz Schubert: Notturno
Leonid Desyatnikov: Wie der Alte Leiermann
Schubert: Kvartetsatz
Schubert: Fantasy in F minor
Arnold Schoenberg: Fantasie violin and piano
Schubert: Fantasie violin and piano

Listafólk

Rosanne Philippens, István Várdai, Julien Quentin, Sayaka Shoji, Víkingur Ólafsson, Maxim Rysanov, Nicolas Altstaedt, Vilde Frang

„Kammermúsík á heimsmælikvarða“ — Víðsjá, RÚV

24. June

Síðustu tónar Shostakovich

23:15 - Mengi

Þessir lágnættistónleikar í Mengi eru helgaðir síðasta verkinu sem Dmitri Shostakovich festi á blað, víólusónötunni, sem tónskáldið lauk við fáeinum vikum fyrir andlátið. Verkið er sannkallað meistaraverk, býr jafnt yfir harmrænni dýpt og tærum gáska. Það er vel við hæfi að flytja þetta verk frá ævikvöldi tónskáldsins seint um kvöld: Í þriðja kafla sónötunnar bregður fyrir skýrum vísunum í Tunglskinssónötu Ludwigs van Beethoven.

Dagskrá

Dmitri Shostakovich: Viola Sonata

Listafólk

Maxim Rysanov, Víkingur Ólafsson

 

25. June

5 klukkustundir Feldmans

13:00 - Mengi

Strengjakvartett nr. 2 eftir Morton Feldman er lengsti strengjakvartett sem nokkru sinni hefur verið skrifaður. Hann tekur um 5 tíma í flutningi og sprengir þannig utan af sér alla hefðbundna umgjörð slíkra verka. Verkið er tilraun um tímann og upplifun mannsins á honum – hljóðar umbreytingar hans og síbreytileg mynstur bjóða hlustandanum inn í leiðslukennt ferðalag um eigin hugarheim, minningar, væntingar og skynjun. Tónleikagestum er frjálst að standa og sitja, koma og fara (hljóðlega) að vild, en verðlaun verða veitt þeim sem sitja út allt verkið.

Dagskrá

Morton Feldman: String Quartet No 2

Listafólk

Siggi String Quartet

 

25. June

Lokatónleikar 2017 – Frjálsar hendur

20:00 Eldborg - Harpa

Aldrei fyrr hefur Reykjavík Midsummer Music skartað jafn mögnuðu samansafni listamanna úr fremstu röð. Á glæsilegum lokatónleikum hátíðarinnar fá þessir stórfenglegu listamenn frjálsar hendur með verkefnavalið á stóra sviðinu í Eldborg, þar sem dirfska og spilagleði verða í fyrirrúmi. Nú eru það áheyrendur sem opna hjörtu sín fyrir hinu óvænta, en njóta leiðsagnar listræns stjórnanda hátíðarinnar, Víkings Heiðars Ólafssonar, um fjölbreytta, spennandi og háleynilega dagskrá sem endurspeglar styrkleika og ástríður listamannanna tólf. Rétt eins og ávallt á Reykjavík Midsummer Music mætast þar hið gamla og hið nýja, hið kunnuglega og framandi. Missið ekki af einstakri kvöldstund í Eldborg.

Dagskrá

Efnisskrá verður tilkynnt á tónleikunum af Víkingi Heiðari.

Listafólk

Vilde Frang, Sayaka Shoji, Rosanne Philippens, Davíð Þór Jónsson, Julien Quentin, Maxim Rysanov, István Várdai, Nicolas Altstaedt, Víkingur Ólafsson, Pétur Grétarsson, Eggert Pálsson, Steef van Oosterhout

 

Aðalstyrktaraðili

Þiggið nýjustu fréttir!

Til andlegrar upplyftingar og hressingar sendum við tónlist, fróðleik og – á sérstökum hátíðarstundum – tilboð!

Um hátíðina

Reykjavík Midsummer Music er tónlistarhátíð, stofnuð af Víkingi Heiðari Ólafssyni árið 2012 og haldin í samvinnu við Hörpu. Hátíðin, sem fer fram í kringum sumarsólstöður, hefur vakið athygli fyrir kraftmikla og frumlega dagskrá og laðar til landsins heimsþekkta listamenn sem leika með einvalaliði íslenskra listamanna. Reykjavík Midsummer Music hefur skipað sér sérstakan sess í íslensku menningarlífi, hlotið einróma lof gagnrýnenda og m.a. unnið Íslensku tónlistarverðlaunin sem „Viðburður ársins “ auk þess að hljóta sérstök nýsköpunarverðlaun, „Rogastans“.

Reykjavík Midsummer Music er hátíð fyrir hið forvitna eyra. Dagskrá hvers árs hverfist í kringum afmarkað þema sem tengir saman ólíkar tegundir tónlistar , tónlistarfólks – og oft ólíkar listgreinar. Listræn stefna hátíðarinnar einkennist af því að öll tónlist sem flutt er í dag flokkist í raun sem nútímatónlist, hvort sem hún var samin á 17. eða 21. öldinni. Þegar verkum úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum er teflt saman getur orðið mikill galdur, hverjir tónleikar að sögu sem aldrei fyrr hefur verið sögð. Þannig viljum við hafa það.

GAMMA er aðalstyrktaraðili Reykjavík Midsummer Music 2017 og 2019.

Við þökkum styrktaraðilum okkar kærlega fyrir stuðninginn. Án þeirra væri engin hátíð.