davidthor

Davíð Þór Jónsson

Davíð Þór Jónsson píanóleikari er fjölhæfur og skapandi listamaður með sérstaka ástríðu fyrir spunatónlist, en fyrsta sólóplata hans, Rask, kom út 2002. Hann hefur leikið í hljómsveitum á borð við tríóið FLÍS og ADHD, starfað með mörgum af fremstu tónlistar- og sviðslistamönnum Íslands, bæði sem hljóðfæraleikari, tónskáld, útsetjari og upptökumaður. Davíð Þór hefur átt í áralöngu samstarfi við Ragnar Kjartansson myndlistarmann, og unnið með honum að verkum á borð við „The End“ (framlagi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2009) og verkinu „Guð“. Davíðs Þórs hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis bæði Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin.
Vikingur_Olafsson_433A3891_01-minni

Eggert Pálsson

Eggert Pálsson hefur gegnt starfi fyrsta pákuleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan árið 1987. Auk hljómsveitarstarfsins hefur hann komið fram með ýmsum tónlistarhópum, svo sem Kammersveit Reykjavíkur, kammersveitinni CAPUT, La Cappella, Wiener Bach-Solisten og slagverkshópnum BENDU. Eggert er stofnfélagi í sönghópnum Voces Thules, sem hefur um árabil verið leiðandi afl í flutningi á íslenskri tónlistarhefð miðalda. Eggert hefur unnið að tónlist fyrir ýmis sviðslistaverk, t.d . Þjóðleikhúsinu, og leggur einnig stund á kennslu. Eggert lagði stund á slagverks- og píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Tónlistarháskólann í Vín í Austurríki.
IstvanVardai

István Várdai

Ungverski sellóvirtúósinn István Várdai er eini sellóleikari heims sem hefur unnið bæði Alþjóðlegu sellókeppnina í Genf (2008) og ARD-keppni þýska ríkisútvarpsins í München (2014). Síðan Várdai þreytti frumraun sína með sinfóníuhljómsveitinni í Haag 1997 hefur hann verið tíður gestur með hljómsveitum á borð við Rússnesku þjóðarhljómsveitina, Mariinsky-hljómsveitina í Pétursborg og Bæversku útvarpshljómsveitina, og unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Ádám Fischer, Howard Griffith og Zoltán Kocsis. Hann er virkur kammermúsíkant og kemur gjarnan fram með hljóðfæraleikurum á borð við András Schiff, Yuri Baschmet, Gidon Kremer og Jean-Efflam Bavouzet. Várdai hlaut menntun sína við Franz Liszt-akademíuna í Búdapest, Tónlistarakademíuna í Vín og við Kronenberg-Akademíuna í Þýskalandi, þar sem hann hefur sjálfur kennt síðan 2013.
julienquentin

Julien Quentin

Franski píanóleikarinn Julien Quentin býr yfir geysimikilli músíkalskri breidd, og býr jöfnum höndum yfir hárfínu næmi og gallalausri tækni. Hann hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum víða um heim, svo sem Fílharmóníusveitinni í Wroclaw, Fílharmóníusveitinni  í Cordoba og Konserthljómsveit Háskólans í Indiana undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Tommaso Placidi, Eduardo Alonso-Crespo og Paul Biss. Í heimi kammertónlistar er Julien Quentin einn eftirsóttasti píanóleikari sinnar kynslóðar, en hann starfar reglulega með tónlistarmönnum á borð við Emmanuel Ax, Lisu Batiashvili, Michael Collins, Sol Gabetta, Nelson Goerner og Ilya Gringolts og kemur fram á virtustu tónlistarhátíðum heims, svo sem Verbier, La Jolla og Mostly Mozart. Quentin er fæddur í París og lærði við Konservatoríið í Genf, Háskólann í Indiana og Juilliard-skólann, þar sem lærimeistari hans var György Sándor.
LarsAndersTomter

Lars Anders Tomter

Norski víóluleikarinn Lars Anders Tomter er meðal fremstu víóluleikara samtímans, en tónlistartímaritið The Strad hefur nefnt hann „risann í norrænum víóluleik“. Á glæstum ferli sem spannar aldarfjórðung hefur Tomter haldið tónleika á stöðum á borð við Musikverein í Vín, Carnegie Hall í New York, Wigmore Hall í Lundúnum og Konzerthaus í Berlín og leikið einleik með hljómsveitum á borð við BBC Symphony Orchestra, Royal Philharmonic Orchestra, Academy of St. Martin in the Fields, Hátíðarhljómsveitinni í Búdapest og öllum helstu hljómsveitum Norðurlandanna. Tomter er forvígismaður nýrrar tónlistar og hefur frumflutt konserta eftir ýmis tónskáld, svo sem Rolf Wallin og Erkki-Sven Tüür. Tomter gegnir prófessorsstöðu við Norsku tónlistarakademíuna í Osló og kemur reglulega fram á helstu tónlistarhátíðum heims.
Photo: Laszlo Emner

Maxim Rysanov

Úkraínsk-breski víóluleikarinn Maxim Rysanov hefur um árabil verið talinn meðal fremstu víóluleikara heims og hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum á borð við Maríinsky-hljómsveitina í Sankti-Pétursborg (undir stjórn Valerys Gergiev), BBC-sinfóníuhljómsveitina og Sinfóníuhljómsveitina í Seattle, auk þess að vera tíður gestur á tónlistarhátíðum á borð við Proms-hátíð Breska ríkisútvarpsins í Lundúnum, á Verbier-hátíðinni í Sviss og Salzburgarhátíðinni í Austurríki. Til viðbótar við einleik og kammertónlist hefur Rysanov á seinni árum látið að sér kveða sem hljómsveitarstjóri. Rysanov fæddist í Úkraínu en settist að í Lundúnum eftir að hann lauk framhaldsnámi við Guildhall-tónlistarháskólann. Hann gegnir nú stöðu staðarlistamanns við Royal College of Music. Maxim Rysanov leikur á víólu smíðaða af Giuseppe Guadagnini árið 1780.
nicolasaltstaedt

Nicolas Altstaedt

Þýsk-franski sellóleikarinn Nicolas Altstaedt er þekktur bæði fyrir einstakan tón og áreynslulaust virtúósítet og er eftirsóttur sem einleikari, stjórnandi og kammermúsíkant víða um heim. Á komandi tónleikamisseri kemur Altstaedt m.a. í fyrsta sinn fram með Ensku kammersveitinni og stjórnar þá sveitinni frá hljóðfærinu, og frumflytur sellókonsert Esa-Pekka Salonen undir stjórn tónskáldsins á Tónlistarhátíðinni í Helsinki. Þá snýr hann aftur í Carnegie Hall ásamt píanóleikaranum Fazil Say. Síðasta vetur kom Altstaedt m.a. fram með Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín, NDR Elbphilharmonie-sveitinni og Sinfóníuhljósmveitinni í Strassbourg undir stjórn Leifs Segerstram. Altstaedt er listrænn stjórnandi Haydn-fílharmóníunnar og var árið 2012 valinn sem eftirmaður Gidons Kremers sem stjórnandi tónlistarhátíðarinnar í Lockhenhaus í Austurríki. Altstaedt leikur á Giulio Cesare Gigli-selló, sem var smíðað í Róm um 1760.
10401480_859712624113202_8970057125595180067_n

Pétur Grétarsson

Slagverk

Pétur Grétarsson slagverksleikari hefur verið mikilvirkur í íslensku tónlistarlífi í yfir 25 ár. Hann hefur unnið með fjölmörgum listamönnum úr ýmsum heimhornum og komið reglulega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk þess að spila á einleikstónleikum og með hljóðfærahópum. Pétur spilar tónlist eftir sjálfan sig og aðra jöfnum höndum og hefur skrifað mikið af tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir. Pétur lærði á slagverk við Tónlistarskólann í Reykjavík og svo jazz, slagverk og tónsmíðar við Berklee College of Music í Boston. Hann var listrænn stjórnandi Jazzhátíðar í Reykjavík um árabil og stýrir nú Hátalaranum, vinsælum daglegum útvarpsþætti á Rás 1.
rosannephilippens

Rosanne Philippens

Rosanne Philippens telst til bestu fiðluleikara Hollands, en einstaklega opinn, hrífandi og tjáningarríkur leikur hennar hefur áunnið henni verðlaun í keppnum á borð við Hollensku fiðlukeppnina (2009) og Alþjóðlegu fiðlukeppnina í Freiburg (2014). Philippens hefur unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Yannick Nézét-Sequin, Xian Zhang og Stefan Asbury og leikið einleik með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitirnar í Freiburg og Stuttgart, Sinfóníuhljómsveitina í Barcelona,  Strengjafílharmóníusveit Rotterdam og Sinfóníuhljómsveitina í Jerúsalem. Philippens er mikilvirkur kammertónlistarmaður og hefur leitt Allegra-strengjakvartettinn í mörg ár. Hún leggur ríka áherslu á að þenja út mörk tónlistargreina, og leikur sjálf margskonar tónlist utan klassísku tónlistarhefðarinnar  – svo sem sígaunatónlist og bluegrass. Philippens útskrifaðist með láði frá Konunglega tónlistarháskólanum í Haag og Hanns Eisler-tónlistarháskólanum í Berlín.
sayakashoji

Sayaka Shoji

Síðan japanski fiðluvirtúósinn Sayaka Shoji vann fyrstu verðlaun í Paganini-fiðlukeppninni 1999, fyrst japanskra fiðluleikara og yngst allra sigurvegara frá upphafi, hefur hún komið fram sem einleikari með helstu sinfóníuhljómsveitum heims undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Sir Colin Davis, Vladimir Ashkenazy, Charles Dutoit, Mariss Jansons, Lorin Maazel, Zubin Mehta og Paavo Järvi. Sayaka kemur reglulega fram sem einleikari og kammermúsíkant með tónlistarmönnum á borð við Joshua Bell, Vladim Repin, Julian Quentin, Yefim Bronfman og Steven Isserlis. Sayaka hefur hljóðritað fjölda geisladiska fyrir Deutsche Gramophon og hlotið margvíslegt lof, m.a. fyrir „ríkulegan, kraftmikinn tón“ og „ljóðræna, fíngerða hendingamótun“ (Gramophone). Sayaka Shoji leikur á Recamier Stradivarius-fiðlu frá 1729 sem hún hefur í láni frá Ueno Fine Chemicals Industry Ltd.
Steef van Oosterhout

Steef van Oosterhout

Slagverk

Steef van Oosterhout er leiðari slagverksdeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann útskrifaðist frá Sweelinck-konservatoríinu í Amsterdam 1987 og hefur síðan leikið með fjölda kammerhópa og hljómsveita í Hollandi og á Íslandi. Meðal hollenskra hópa má nefna ASKO ensemble, Schönberg ensemble og Nederlands blazers ensemble, auk þess sem hann kom fram með flestum sinfóníuhljómsveitum landsins, þar á meðal Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam. Síðan hann fluttist til Íslands 1991 hefur hann starfað með mörgum tónlistarhópum hérlendis, svo sem CAPUT-hópnum, Contrasti og slagverskhópnum Bendu.  
SiggiStringQuartet

Strokkvartettinn Siggi

Strokkvartettinn Siggi hefur starfað saman síðan á árinu 2012. Meðlimir kvartettsins hafa verið áberandi í íslensku tónlistarlífi um árabil og eru öll í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kvartettinn skipa Una Sveinbjarnardóttir, fiðla, Laufey Jensdóttir, fiðla (sem leysir Helgu Þóru Björgvinsdóttur af), Þórunn Ósk Marínósdóttir, víóla, og Sigurður Bjarki Gunnarsson, selló. Tónleikar Strokkvartettsins Sigga hafa vakið athygli ekki síst vegna mikillar breiddar í efnistökum en kvartettinn hefur frumflutt fjöldan allan af nýjum kvartettum í bland við að flytja Beethoven, Schostakovich, Bach og Prokofiev svo einhverjir séu nefndir. Kvartettinn hefur verið í gjöfulu sambandi við fjölmörg tónskáld og frumflutt verk eftir Hauk Tómasson, Atla Heimi Sveinsson, Unu Sveinbjarnardóttur, Halldór Smárason, Daníel Bjarnason, Báru Gísladóttur, Finn Karlsson og Hauk Þór Harðarson.

VIB_Vikingur_RI_3193

Víkingur Ólafsson

Píanó / Listrænn stjórnandi

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson hefur komið víða við og unnið með sumum af fremstu tónlistarmönnum samtímans. Í vetur lék hann meðal annars einleik með Fílharmóníusveit Los Angeles, Útvarpshljómsveitinni í Leipzig, og Elbphilharmonie í Hamborg með stjórnendum á borð við Esa-Pekka Salonen, Lawrence Foster og Kristjan Järvi. Einnig hélt hann einleikstónleika í Konzerthaus í Vín, Konzerthaus í Berlín, í Elbphilharmonie, á Istanbul Music Festival og á La Folle Journée hátíðinni í Nantes. Í febrúar gaf Víkingur út safn píanóverka eftir Philip Glass undir merkjum Deutsche Grammophon-útgáfunnar, og hefur upptakan hlotið einróma lof gagnrýnenda í blöðum á borð við Gramophone og BBC Music Magazine. Víkingur hefur frumflutt 6 íslenska píanókonserta og unnið með tónskáldum á borð við Philip Glass, Hauk Tómasson, Mark Simpson og Daníel Bjarnason. Hann er listrænn stjórnandi Reykjavík Midsummer Music tónlistarhátíðarinnar og Vinterfest í Svíþjóð. Víkingur er tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2017.
Photo: Marco Borggreve

Vilde Frang

Norski fiðuleikarinn Vilde Frang er meðal eftirsóttustu fiðluleikara samtímans, bæði sem einleikari og kammermúsíkant. Síðan hún þreytti frumraun sína með Óslóar-fílharmóníunni aðeins 12 ára gömul hefur komið fram með sumum af fremstu hljómsveitum heims, svo sem Mahler-kammersveitinni, Lundúnafílharmóníunni, Concertgebouw-hljómsveitinni og Fílharmóníusveit Berlínar undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Valerie Gergiev, Vladimir Ashkenazy, Mariss Jansons og Paavo Järvi. Hljóðritanir hennar fyrir Warner Classics hafa unnið til fjölmargra verðlauna, svo sem Classical BRIT-verðlaunanna, ECHO- og Gramophone-verðlaunanna. Vilde Frang leikur á Jean-Baptiste Vuillaume-fiðlu frá 1864.