rmm.artist.1920x1080.7

Anahit Kurtikyan

Fiðla

Armenski fiðluleikarinn Anahit Kurtikyan hóf fiðlunám í heimalandinu og hélt síðar til Sviss þar sem hún naut leiðsagnar hins heimskunna Tibor Varga. Hún hefur verið leiðari annarrar fiðlu Óperuhljómsveitarinnar í Zürich frá árinu 2001 og er atkvæðamikil á sviði kammertónlistar en á meðal samstarfsmanna má nefna Rudolph Buchbinder, Steven Isserlis, Dietrich Fischer-Dieskau og Paul Meyer. Húm var meðlimur hins nafntogaða svissneska Amati-strengjakvartetts um árabil og hefur verið annar fiðluleikari Gringolts-strengjakvartettsins frá stofnun kvartettsins árið 2008. Gringolts-kvartettinn hefur komið fram víða um heim, í virtum tónleikasölum svo sem Wigmore Hall og á tónlistarhátíðum svo sem í Lucerne,  Salzburg, Edinborg og Verbier. Kvartettinn hefur unnið til verðlauna fyrir hljóðritanir sínar, þar á meðal Diapason d’Or og Echo Klassik verðlaunin.  
rmm.artist.1920x1080.11

Emilía Rós Sigfúsdóttir

Flautuleikari

Flautuleikarinn Emilía Rós Sigfúsdóttir hefur á undanförnum árum skipað sér í röð fremstu hljóðfæraleikara sinnar kynslóðar á Íslandi. Leikur hennar hefur hlotið afar góða dóma síðastliðin ár en diskur hennar Portrait hlaut lofsamlega dóma í hinu virta tónlistartímariti Gramophone og þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Einnig fengu tónleikar hennar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimm stjörnu dóm í Fréttablaðinu fyrir flutning á flautukonserti Ibert árið 2016. Emilía Rós hefur komið víða fram sem einleikari, nú síðast í janúar 2019 þegar hún frumflutti flautukonsert Jóns Ásgeirssonar með Sinfóníuhljómsveit Íslands en flutningurinn fékk frábærar viðtökur. Hún leikur reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Hljómsveit Íslensku óperunnar, kammerhóp sínum Elektra Ensemble og hefur einnig leikið víða um Evrópu með Björk og flautuseptettinum Viibra.  

rmm.artist.1920x1080.4

Florian Boesch

Barítón

Austurríski barítónsöngvarinn Florian Boesch vakti fyrst verulega athygli þegar hann þreytti frumraun sína á Schubertiade-tónlistarhátíðinni í Schwarzenberg í Austurríki árið 2002, 31 árs og í kjölfarið fór ferill hans á flug. Blæbrigðarík, djúp og persónuleg túlkun hans á  ljóðasöngvum 19. aldarinnar hefur skipað honum í röð eftirsóttustu ljóðasöngvara heims en hann kemur  reglulega fram í tónleikasölum á borð við Wigmore Hall, Musikverein og Concertgebouw. Boesch hefur auk þess unnið með mörgum af virtustu sinfóníuhljómsveitum heims undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við Philippe Herreweghe, René Jacobs og Gustavo Dudamel. Á meðal nýlegra óperuhlutverka má nefna titilhlutverkið í Wozzeck eftir Alban Berg í Theater an der Wien. Hljóðritun Boesch og Malcolm Martineau á Malarastúlkunni fögru eftir Schubert var tilnefnd til Grammy-verðlaunanna 2015. 
rmm.artist.1920x1080.3

Ilya Gringolts

Fiðluleikari

Rússneski fiðluvirtúósinn Ilya Gringolts nam fiðluleik og tónsmíðar í Pétursborg og síðar fiðluleik í Juilliard-skólanum í New York hjá Itzhak Perlman.  Segja má að blómlegur ferill hans hafi byrjað strax árið 1998 þegar hann bar sigur úr býtum í alþjóðlegu Paganini-keppninni í Genua, sextán ára gamall og þá yngsti sigurvegari keppninnar frá upphafi. Gringolts hefur síðan átt gríðarlega farsælan einleikaraferil auk þess að vera mikilvirkur kammertónlistarmaður en hann er stofnandi og fyrsti fiðluleikari Gringolts-strengjakvartettsins og á meðal annarra samstarfsmanna má nefna  Mikhail Pletnev, Maxim Vengerov, Yuri Bashmet og Lynn Harrell. Á víðfeðmri og sístækkandi verkaskrá Gringolts er að finna glænýja tónlist í bland við lítt þekktar perlur fortíðar og verk fyrir barokkfiðlu auk sígildra og sívinsælla fiðlukonserta og -einleiksverka.   
rmm.artist.1920x1080.12

Jacek Karwan

Kontrabassi

Jacek Karwan stundaði nám við Univeristät der Künste í Berlin og Hochschule für Musik í Basel. Hann hefur komið víða fram og m.a. leikið einleik með Podlasie fílharmóníunni á Euro kammertónlistarhátíðinni. Á námsárunum lék Jacek með hljómsveitum á borð við Gstaad Festival Orchestra, Gustav Mahler Jugendorchester, European Union Youth Orchestra og Pacific Music Festival Orchestra og kom m.a. fram á BBC Proms, Edinborgarhátíðinni og Schleswig-Holstein tónlistarhátíðinni. Hann hefur leikið undir fjölda þekktra stjórnenda, m.a. Sir Neville Marriner, Fabio Luisi, Neeme Järvi, Vladimir Ashkenazy og Philippe Jordan. Jacek var áður leiðari við Gorzow fílharmóníuna en leikur nú með Sinfóníuhlómsveit Íslands.  
rmm.artist.1920x1080.5

Jakob Koranyi

Sellóleikari

Sænski sellóleikarinn Jakob Koranyi nam hjá Torleif Thedéen, Ralph Kirschbaum og Franz Helmerson. Nítján ára gamall bar hann sigur úr býtum í keppninni Ungir tónlistarmenn í Svíþjóð og fjórum árum síðar, 2006, hneppti hann Sænsku einleikaraverðlaunin sem veitt eru af Konunglegu tónlistarakademíunni í Svíþjóð. Í kjölfar þess sigurs kom út rómuð debútplata hans með sónötum eftir Brahms, Ligeti og Britten. 2008 hlaut hann heiðursverðlaun Verbier-tónlistarhátíðarinnar í Sviss og 2009 annað sætið í Rostropovich-keppninni í París. Frægðarsól Koranyi hefur risið hratt á undanförnum árum, vald hans yfir hljóðfærinu, margslungin túlkun og áhugavert verkefnaval hefur komið honum á kortið sem einum af áhugaverðasta unga einleikara Evrópu um þessar mundir en hann hefur komið fram um alla álfuna sem einleikari og kammertónlistarmaður. 
rmm.artist.1920x1080.2

Katia og Marielle Labèque

Píanóleikarar

Frönsku systurnar Katia og Marielle Labèque skipa þekktasta píanódúett heims en samstarf þeirra hefur nú varað í ríflega hálfa öld. Þeim skaut upp á stjörnuhimininn árið 1980 þegar plata með túlkun þeirra á Rhapsody in Blue í útsetningu fyrir tvö píanó eftir George Gershwin seldist í meira en hálfri milljón eintaka. Á glæsilegum ferli sínum hafa þær komið fram með flestum af virtustu sinfóníuhljómsveitum heims undir stjórn heimsfrægra stjórnenda á borð við Marin Alsop, John Eliot Gardiner og Semyon Bychkov svo örfá dæmi séu tekin. Þrotlaus leit eftir nýjum áskorunum og viðfangsefnum hefur einkennt feril þeirra systra en breið verkefnaskrá þeirra spannar margar aldir og ólíkar tónlistarstefnur; háklassíska píanókonserta í bland við tilraunakenndan mínímalisma, rómantík og ragtime, barokk og baskneska tónlist svo fátt eitt sé nefnt. Löng og litrík hljóðritaskrá ber þess merki að þær leita víða fanga en þær hafa sent frá sér tugi rómaðra hljómplatna. Fyrsta plata þeirra, Les Visions de l’Amen eftir Olivier Messiaen kom út árið 1969 og var hún unnin undir listrænni stjórnun tónskáldsins sjálfs. Systurnar hafa allar götur síðan átt í nánu samstarfi við samtímatónskáld; þeirra á meðal Luciano Berio, Pierre Boulez, György Ligeti, Philip Glass, Thomas Adès, Louis Andriessen og Osvaldo Golijov. Á meðal nýlegra verkefna má nefna samstarf systranna við tónskáldin Bryce Dessner (úr hljómsveitinni The National) og Tom Yorke (úr hljómsveitinni Radiohead) sem báðir hafa samið verk fyrir Labèque-systur. Fyrr á þessu ári kom út hjá Deutsche Grammophone plata tileinkuð tónlist Dessner í flutningi Labèque-systra.
rmm.artist.1920x1080.8

Leonard Elschenbroich

Sellóleikari

Þýski sellóleikarinn Leonard Elschenbroich hefur verið hylltur af gagnrýnendum og tónleikagestum víða um heim fyrir tæknilega fullkomnun og djúpa og ástríðufulla túlkun. Árið 2012 var Elschenbroich ásamt sex öðrum ungum tónlistarmönnum útnefndur Listamaður nýrrar kynslóðar af BBC  en sú útnefning leiddi til fjölda tónleika og hljóðritana með sinfóníuhljómsveitum BBC auk tónleika á PROMS, Sumartónlistarhátíð Breska ríkisútvarpsins þar sem Elschenbroich hefur komið fram með jöfnu millibili síðan. Elschenbroich er ötull túlkandi nýrrar tónlistar og hefur pantað og frumflutt verk eftir Mark-Anthony Turnage, Luca Lombardi og Mark Simpson svo nokkur séu nefnd. Samhliða afar glæsilegum einleikara- og kammertónlistarferli hefur Elsenbroich undanfarið lagt sig í síauknum mæli eftir hljómsveitarstjórn og stýrt hljómsveitum á Bretlandseyjum og víða í Suður-Ameríku.  
rmm.artist.1920x1080.10

Mark Simpson

Klarinettuleikari og staðartónskáld

Mark Simpson á að baki tilkomumikinn feril sem klarinettueinleikari og tónskáld. Árið 2006 bar hann sigur úr býtum í keppninni Ungur tónlistarmaður ársins sem haldin er af BBC en sama ár vann hann einnig til fyrstu verðlauna í keppninni Ungtónskáld ársins sem Guardian og BBC Proms halda ár hvertSem einleikari á klarinett hefur hann komið fram um heim allan með ótal virtum hljómsveitum, á einleiks- og kammertónleikum svo sem í Wigmore Hall, Royal Festival Hall og á tónlistarhátíðunum í Salzburg og Aldeburg. Mark Simpson er eftirsótt tónskáld, tónlist hans hefur m.a. verið flutt á BBC Proms, Barbican Centre og í Konunglegu óperunni í London. Á meðal nýlegra verka má nefna Sellókonsert sem pantaður var af Fílharmóníusveit BBC fyrir Leonard Elschenbroich og frumfluttur 2018. 
rmm.artist.1920x1080.9

Roedelius

Raftónlistarmaður

Ferill þýska tónlistarmannsins Hans-Joachim Roedelius er ævintýri líkastur en hann hefur verið í framvarðasveit tilraunakenndrar raftónlistar um áratugaskeið og hefur sjaldan haft meira að gera en nú, 85 ára gamall. Í kringum árið 1970 stofnaði hann sveitina Cluster sem starfaði með hléum til ársins 2010 og þykir nú ein af áhrifamestu raftónlistarsveitum allra tíma. Árið 1978 hóf Roedelius jafnframt sólóferil sem ekki sér fyrir endann á.  Hann hefur á fjörutíu árum sent frá sér fimmtíu sólóplötur og átt í samstarfi við stóran hóp listamanna úr ýmsum geirum tónlistar svo sem Brian Eno, Christofer Chaplin og Víking Heiðar Ólafsson. Roedelius er einn höfunda á plötunni Bach Reworks sem kom út hjá Deutsche Grammophon árið 2018 en þar endurhljóðblanda tónlistarmenn úr ólíkum áttum túlkun Víkings á hljómborðsverkum Bachs.   
unnamed

Steef van Oosterhout

Slagverksleikari

Steef van Oosterhout er leiðari slagverksdeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann útskrifaðist frá Sweelinck- konservatoríinu í Amsterdam 1987 og hefur síðan leikið með fjölda kammerhópa og hljómsveita í Hollandi og á Íslandi. Meðal hollenskra hópa má nefna ASKO ensemble, Schönberg ensemble og Nederlands blazers ensemble, auk þess sem hann kom fram með flestum sinfóníuhljómsveitum landsins, þar á meðal Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam. Síðan hann fluttist til Íslands 1991 hefur hann starfað með mörgum tónlistarhópum hérlendis, svo sem CAPUT-hópnum, Contrasti og slagverskhópnum Bendu.
rmm.artist.1920x1080.

Víkingur Ólafsson

Píanóleikari og listrænn stjórnandi

Víkingur Heiðar Ólafsson hefur fyrir löngu skipað sér í röð fremstu og áhugaverðustu tónlistarmanna Íslands þar sem saman renna tæknilegir yfirburðir, djúp túlkun og ferskt og frumlegt verkefnaval. Víkingur hefur komið fram sem einleikari víða um heim, í tónleikasölum á borð við Berlínarfílharmóníuna, Royal Albert Hall og Suntory Hall í Tokýó og spilað með sinfóníuhljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitina í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveitina í Gautaborg og Fílharmóníusveit Franska útvarpsins undir stjórn hljómsveitarstjóra svo sem Thomas Adès, Esa Pekka Salonen og Alan Gilbert. Samstarf hans við bandaríska tónskáldið Philip Glass hefur gefið af sér rómaða einleiksplötu sem kom út hjá Deutsche Grammophone en hjá sömu útgáfu kom á liðnu ári út túlkun Víkings á hljómborðsverkum Bachs. Víkingur er listrænn stjórnandi Reykjavík Midsummer Music.
rmm.artist.1920x1080.6

Yura Lee

Fiðla og víóla

Hin fjölhæfa tónlistarkona Yura Lee á að baki tuttugu ára glæstan og áhugaverðan feril sem fiðluleikari og víóluleikari en hún býr yfir þeim fágætu hæfileikum að vera jafnvíg á bæði hljóðfærin. Hún er fædd í Seoul í Suður-Kóreu en fluttist ásamt foreldrum sínum til New York níu ára gömul þar sem hún hóf nám hjá Dorothy DeLay í Juilliard-skólanum og um svipað leiti hófst einleikaraferill hennar á fiðlu. Yura Lee kemur reglulega fram sem einleikari og kammermúsíkant á hvort tveggja fiðlu og víólu með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitirnar í New York, Los Angeles og Tokyo undir stjórn hljómsveitarstjóra svo sem Lorin Maazel, Myung-Whun Chung og Mikhail Pletnev. Á meðal samstarfsfólks hennar á sviði kammertónlistar má nefna Gidon Kremer, András Schiff og Mitsuko Uchida.