Velkomin!

Ég kynni með stolti og gleði dagskrá Reykjavík Midsummer Music, þar sem leiðandi tónlistarmenn koma saman úr ólíkum heimshornum og leika stórkostlega tónlist af innblæstri og krafti í Hörpu yfir sumarsólstöður.

Ég hef sett saman dagskrána með það fyrir augum að hverjir tónleikar segi einstaka sögu, leiði saman hið nýja og gamla, varpi ljósi á óvæntar tengingar og seti hlutina í ferskt og fallegt samhengi.

Sjáumst í Hörpu, 20.-23. júní.

Víkingur Heiðar Ólafsson
Listrænn stjórnandi

20. June

Minning um Flórens –
Souvenir de Florence

20:00 - Eldborg, Harpa

Á glæsilegum upphafstónleikum hátíðarinnar í Eldborg líta þrír risar rússneskra og þýskra tónbókmennta inn á við og hugleiða eftirminnilegar manneskjur og staði – velta fyrir sér hinum dularfulla og ljúfsára hverfulleika tilverunnar. Efnisskráin hefst á hinsta ljóðaflokki Jóhannesar Brahms, Fjórum alvarlegum söngvum, sem var saminn þegar heittelskuð vinkona tónskáldsins, Clara Schumann, lá fyrir dauðanum. Flokkurinn er bæði tregafullur og ægifagur og hæfir vel dökkri en hlýrri rödd hins heimsfræga, austurríska barítónsöngvara Florians Boesch. Dmitri Shostakovich samdi sitt mikilfenglega Píanótríó nr. 2 í minningu nýlega látins vinar síns, Ivans Sollertinskys, sem staðið hafði með tónskáldinu gegnum þykkt og þunnt – líka ofsóknir sjálfs Stalíns. Það er öllu bjartara yfir lokaverki tónleikanna, Minningu um Flórens, sem Pjotr Tsjækofskí samdi innblásinn af fegurð og andrúmslofti Flórensborgar. Þetta ævintýralega fallega kammerverk hljómar hér í fyrsta sinn á Íslandi í nýrri og frábærri umritun fyrir píanótríó, en það var upphaflega samið sem strengjasextett.

Dagskrá

J. Brahms: Vier Ernste Gesänge
D. Shostakovich: Píanótríó nr. 2 í e-moll
Pjotr Tchaikovsky: Souvenir de Florence (Úts. fyrir píanótríó: M. D. Porat)

Listafólk

Florian Boesch, barítón, Ilya Gringolts, fiðla, Yura Lee, fiðla, Leonard Elschenbroich, selló, Jakob Koranyi, selló, Víkingur Heiðar Ólafsson, píanó

„Absolutely unmissable“ — Reykjavík Grapevine

21. June

Skrifast á –
Hommages

20:00 - Norðurljós, Harpa

Í tónlist er tíminn afstæður, og samtal tónlistarmanna samtímans við tónlist liðinna alda er bæði skapandi og frumlegt. Þetta á sérstaklega vel við um tónlist Bachs, sem þótti gamaldags á sinni tíð, en færir samtímanum sífellt nýjar fréttir, eins og heyra má bæði í glæsilegri sónötu fyrir fiðlu og píanó og í hrífandi og forvitnilegum aríum sem hljóma á þessum tónleikum. Fá samtímatónskáld standast svo Ungverjanum György Kurtág snúning þegar hann sendir gengnum kollegum kveðjur og heiðrar þá með fíngerðum smáverkum sem sanna svo ekki verður um villst að áhrifaríkir minnisvarðar eru ekki alltaf stórir í sniðum. Á efnisskrá þessara tónleika fléttast kaflar úr verki Kurtágs fyrir klarínett, víólu og píanó til minningar um Robert Schumann saman við Ævintýrasögur Schumanns fyrir sömu hljóðfæraskipan, svo tónskáldin tvö fá að skrifast á yfir aldirnar í tónleikasalnum, áður en ungt og framúrskarandi samtímatónskáld tekur við keflinu og sendir sjálfum Kurtág kveðju í tónum. Tónleikunum lýkur svo á tímalausum ljóðaflokki Schumanns, þar sem safarík rödd Florians Boesch flytur okkur innileg skilaboð úr nálægri fortíð.

Dagskrá

J.S. Bach: Fiðlusónata nr. 5 í f-moll
R. Schumann: Märchenerzählungen (Nr. 1)
György Kurtág: Hommage à Robert Schumann (1+2)
R. Schumann: Märchenerzählungen (Nr. 2)
G. Kurtág: Hommage à Robert Schumann (3+4)
R. Schumann: Märchenerzählungen (Nr. 3)
G. Kurtág: Hommage à Robert Schumann (5+6)
R. Schumann: Märchenerzählungen (Nr. 4)
Mark Simpson: Hommage a Kurtág
J.S. Bach: Es ist vollbracht, BWV 159
J.S. Bach: Komm, süßer Tod, komm selge Ruh, BWV 478
J.S. Bach: Siehe, ich stehe vor der Tür, BWV 61
J.S. Bach: Bist du bei mir, BWV 508
R. Schumann: Liederkreis, op 39

Listafólk

Florian Boesch, baríton, Mark Simpson, klarinett, Ilya Gringolts, fiðla, Yura Lee, víóla, Víkingur Heiðar Ólafsson, píanó

„Einn af hápunktum tónlistarársins“ — Fréttatíminn

21. June

Næturtónar – Darkness Moves


(off-venue í Mengi)

23:15 - Mengi - Óðinsgata 2, 101 Reykjavík

Ljós og skuggar renna saman á þessum miðnæturtónleikum í Mengi þar sem heiðríkir tónar úr smiðju Arvo Pärt hljóma í bland við magnað og á köflum martraðarkennt einleiksverk Mark Simpson, Darkness Moves. Tónleikarnir hefjast raunar á tjáningarríkum þjóðlögum frá Svíþjóð og Katalóníu í túlkun hins sænska Jakob Koranyi, Vermalandsvísu (Ack Värmeland, du sköna) og Söng fuglanna (El cant dels ocells) sem varð hvað þekktastur í túlkun katalónska sellistans Pablo Casals. Í beinu framhaldi hljómar í fyrsta sinn á Íslandi magnað einleiksklarinettuverk úr smiðju Mark Simpson, staðartónskálds hátíðarinnar og klarinettuleikara en Darkness Moves (2016) er innblásið af samnefndu ljóðaúrvali belgíska skáldsins Henri Michaux. Verk fullt af andstæðum líkt og í ljóðum Michaux, á köflum martraðarkennt en öðrum stundum eins og hrífandi órar eða skynvillur. Tónleikunum lýkur með meistaraverki eistneska tónskáldsins Arvo Pärt, Fratres frá árinu 1977 en Fratres eða Bræður var meðal fyrstu verkanna sem tónskáldið samdi í hinum þýða og tæra tintinnabuli-stíl sínum eftir áralanga þögn. Fratres var ekki samið fyrir neina ákveðna hljóðfærasamsetningu og hefur því litið dagsins ljós í ótalmörgum útgáfum, verkið hljómar hér í túlkun þeirra Yura Lee, fiðluleikara og Víkings Heiðars Ólafssonar, píanóleikara.

Handhafar hátíðarpassa fá helmingsafslátt af miðaverði á utandagskrártónleikana í Mengi, en fullt miðaverð er 3.000 kr. 

Hægt er að kaupa miða við hurð á tónleikadegi frá klukkan 22:45 í Mengi, Óðinsgötu 2.

Dagskrá

Sænskt þjóðlag: 
Värmlandsvisan
Katalónskt þjóðlag: Söngur fuglanna (úts. Pablo Casals)
Mark Simpson: Darkness Moves
Arvo Pärt: 
Fratres

Listafólk

Jakob Koranyi, selló, Yura Lee, fiðla, Víkingur Ólafsson, píanó, Mark Simpson, klarínett

„Emotionally and intellectually stimulating“ — Concerti Magazine

22. June

Fiðrildi og fiðurfé –
Butterflies and
Feathered Beasts

20:00 - Norðurljós, Harpa

Segja má að fyrri hluti þessara tónleika sé borinn uppi af vængjum fiðrilda, en á efnisskránni eru verk tveggja jöfra í norrænni samtímatónlist sem bæði hverfast um þetta tákn hins fíngerða forgengileika, fiðrildið. Finnska tónskáldið Kaija Saariaho leitaði á náðir fiðrildanna eftir að hafa fengið nóg af bólgnum ástríðum óperuheimsins árið 2000 og samdi Sept Papillons, Sjö fiðrildi – safn smámynda fyrir einleiksselló, þar sem hver kafli veitir mismunandi sjónarhorn á hina töfrandi lífveru og hreyfingar hennar. Danska tónskáldið Bent Sørensen samdi hins vegar stóran þríleik kammerverka undir heitinu Papillons, eða Fiðrildi, á árunum 2013-14, og er píanókvintettinn Rosenbad lokaverkið í þríleiknum, fullt af óræðum og draumkenndum tilfinningum og hughrifum. Eftir hlé taka aðrar vængjaðar verur við af fiðrildunum, en þá leika hinar óviðjafnanlegu frönsku Labèque-systur Gæsamömmusvítu franska tónskáldsins Maurice Ravel, hrífandi og þokkafullt verk í fimm köflum. Í lokaverki tónleikanna bætast svo enn fleiri skepnur, fleygar og ófleygar, við efnisskrána, en það er Karnival dýranna eftir Camille Saint-Saëns. Yfirbragð verksins er bæði fágað og léttúðugt í senn – en í því býr einnig óhefluð andagift tónskálds sem sleppir fram af sér beislinu og leyfir barninu í sér að njóta sín.

Dagskrá

K. Saariaho: Sept Papillons
B. Sørensen: Rosenbad: Papillons
M. Ravel: Gæsamömmusvíta
C. Saint-Saëns: Karnival dýranna

Listafólk

Anahit Kurtikyan, fiðla, Ilya Gringolts, fiðla, Yura Lee, víóla, Jakob Koranyi, selló, Jacek Karwan, bassi, Mark Simpson, klarínett, Leonard Elschenbroich, selló, Emilía Rós Sigfúsdóttir, flauta, Katia Labèque, píanó, Marielle Labèque, píanó, Steef van Oosterhout, slagverk, Víkingur Heiðar Ólafsson, píanó

„Hástemmd fegurð, ekki af þessum heimi“ — Fréttablaðið

22. June

Roedelius

23:15 Norðurljós, Harpa

VINSAMLEGAST ATHUGIÐ BREYTTA STAÐSETNINGU VEGNA MIKILS ÁHUGA Á TÓNLEIKUNUM!

Hans-Joachim Roedelius hefur um áratugaskeið verið í forystusveit sveimkenndrar raftónlistar og haft ómælanleg áhrif á tónlistarmenn á öllum aldri og um allan heim. Þessi síspræki 85 ára gamli meistari, sem hóf ferilinn með sveitunum Cluster og Harmonia á áttunda áratugi síðustu aldar, heldur áfram að hrífa og koma á óvart en undanfarin ár hafa verið honum með eindæmum gjöful og skapandi. Á björtu síðkvöldi í Hörpu býður Roedelius í enn eina óvissuferðina, ævintýralegan hljóðleiðangur ásamt öðrum listamönnum hátíðarinnar.

Handhafar hátíðarpassa fá helmingsafslátt af miðaverði á tónleikana í Hörpu, en fullt miðaverð er 3.000 kr. Afsláttarmiða er aðeins hægt að kaupa í miðasölu Hörpu.

Dagskrá

Roedelius: Verk og spuni

Listafólk

Roedelius, Yura Lee, Víkingur Ólafsson

„Kammermúsík á heimsmælikvarða“ — Víðsjá, RÚV

23. June

Lokatónleikar 2019 –
Grand Finale

20:00 Eldborg, Harpa

Stórglæsilegir lokatónleikar RMM í Eldborg spanna vítt tónlistarlegt litróf og nýta til fulls einstaka listræna krafta hljóðfæraleikara hátíðarinnar. Þeir hefjast á leikrænum og grípandi forleik Sergeis Prokofjev við hebresk þjóðlög, en verkið er samið fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan – klarinett, strengjakvartett og píanó. Ellefti strengjakvartett Dimítrís Shostakovítsj er öllu þungbrýnni tónsmíð. Hann er þéttofinn og knappur, þótt hann rúmi víðfeðmt svið minninga og tilfinninga. Það sama má raunar segja um hinn fræga píanókonsert Jóhanns Sebastíans Bachs í f-moll, sem Víkingur Heiðar Ólafsson leikur ásamt strengjakvintett, en þokkafullur miðkafli konsertsins er einhver sá allra fegursti sem tónskáldið festi á blað. Eftir hlé er slagharpan í forgrunni, í meðförum þekktasta píanódúetts síðari ára, hinna frönsku Labèque-systra. Í Vals og Rómönsu Sergeis Rachmaninoffs er að vísu þörf fyrir þriðja píanistann, og tekur Víkingur Heiðar Ólafsson því sæti milli þeirra systra í heillandi músíkalskri baráttu sex handa um yfirráð yfir hljómborðinu. Tónleikunum og hátíðinni lýkur á nokkrum snilldarverkum minimalismans fyrir tvö píanó – en Evrópa og Ameríka eiga hvort sinn spámann þegar kemur að einfaldleikanum; Arvo Pärt og Philip Glass.

Dagskrá

S. Prokofiev: Forleikur um hebresk stef
J.S. Bach: Hljómborðskonsert nr. 5 í f-moll
D. Shostakovich: Strengjakvartett nr. 11
S. Rachmaninoff: Vals og rómansa fyrir sexhent píanó
A. Pärt: Hymn to a Great City
P. Glass: The Poet Acts
P. Glass: Four Movements for Two Pianos

Listafólk

Ilya Gringolts, fiðla, Anahit Kurtikyan, fiðla Yura Lee, víóla, Leonard Elschenbroich, selló, Mark Simpson, klarinett, Jakob Koranyi, selló, Jacek Karwon, bassi, Katia Labèque, píanó, Marielle Labèque, píanó, Víkingur Heiðar Ólafsson, píanó,

 

Um hátíðina

Reykjavík Midsummer Music er tónlistarhátíð, stofnuð af Víkingi Heiðari Ólafssyni árið 2012 og haldin í samvinnu við Hörpu. Hátíðin, sem fer fram í kringum sumarsólstöður, hefur vakið athygli fyrir kraftmikla og frumlega dagskrá og laðar til landsins heimsþekkta listamenn sem leika með einvalaliði íslenskra listamanna. Reykjavík Midsummer Music hefur skipað sér sérstakan sess í íslensku menningarlífi, hlotið einróma lof gagnrýnenda og m.a. unnið Íslensku tónlistarverðlaunin sem „Viðburður ársins “ auk þess að hljóta sérstök nýsköpunarverðlaun, „Rogastans“.

Reykjavík Midsummer Music er hátíð fyrir hið forvitna eyra. Listræn stefna hátíðarinnar einkennist af því að öll tónlist sem flutt er í dag flokkist í raun sem nútímatónlist, hvort sem hún var samin á 17. eða 21. öldinni. Þegar verkum úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum er teflt saman getur orðið mikill galdur, hverjir tónleikar að sögu sem aldrei fyrr hefur verið sögð. Þannig viljum við hafa það.

Þiggið nýjustu fréttir!

Til andlegrar upplyftingar og hressingar sendum við tónlist, fróðleik og – á sérstökum hátíðarstundum – tilboð!

Aðalstyrktaraðili

Kærar þakkir til okkar tónelsku og örlátu styrktaraðila: